„Þetta er algjört bull og sjálfsblekking,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, í Meistaradeildarmörkunum á Stöð 2 Sport í gær þegar rætt var um viðtal við Erik ten Hag, stjóra Manchester United, eftir tap liðsins gegn Bayern München í lokaumferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar.
United er úr leik í Evrópu á tímabilinu þar sem liðið endaði í neðsta sæti A-riðils með einungis fjögur stig en þrátt fyrir það var ten Hag nokkuð borubrattur í viðtalinu við TNT-Sport og talaði meðal annars um að einstaklingsmistök hefðu orðið liðinu að falli í riðlakeppninni.
„Hann talar um að liðið hafi spilað vel, að það hafi verið mikil orka í liðinu og að þeir hafi spilað vel, varist vel og gefið allt í þetta,“ sagði Jóhannes Karl.
„Þetta er bara bull og svo byrjar hann viðtalið auðvitað á því að tala um einstaklingsmistök hafi orðið þeim að falli sem fer örugglega ekki vel í leikmannahópinn.
Þetta viðtal er bull frá upphafi til enda,“ sagði Jóhannes Karl meðal annars.