Glódís Perla Viggósdóttir og stöllur hennar í Bayern München máttu sætta sig við jafntefli, 1:1, á heimavelli gegn Ajax þegar liðin áttust við í C-riðli Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í kvöld.
Bæjarar náðu forystunni eftir aðeins tveggja mínútna leik þegar Lea Schüller skoraði, áður en Chasity Grant jafnaði metin fyrir Ajax á 38. mínútu.
Fyrirliðinn Glódís Perla lék allan leikinn í vörn Bayern sem endranær en Cecilía Rán Rúnarsdóttir er enn frá vegna meiðsla.
Bayern er á toppi C-riðils með 5 stig. Roma og Ajax koma þar á eftir, bæði með 4 stig, og PSG rekur lestina án stiga.
PSG og Roma mætast í París síðar í kvöld.