Fyrsti leikurinn fyrir Liverpool í tæp tvö ár

Kaide Gordon fagnar marki í leik með Liverpool.
Kaide Gordon fagnar marki í leik með Liverpool. AFP

Enski knattspyrnumaðurinn Kaide Gordon er í byrjunarliði Liverpool fyrir leik liðsins gegn Union St. Gilloise í lokaumferð E-riðils Evrópudeildarinnar í Belgíu í dag. Langt er um liðið síðan Gordon lék síðast fyrir aðalliðið.

Síðast lék hann fyrir aðalliðið í janúar árið 2022 en glímdi í kjölfarið við erfið meiðsli um 19 mánaða skeið. Eru því tæplega tvö ár liðin síðan Gordon lék síðast með aðalliði Liverpool.

Tímabilið 2021-22 lék Gordon fjóra leiki fyrir aðalliðið og skoraði í þeim eitt mark áður en hann meiddist.

Hann greind­ist þá með stoðkerf­is­vanda­mál í mjaðmagrind­inni, vanda­mál sem steðjar að ungmenn­um og má lýsa sem eins kon­ar vaxt­ar­verkj­um.

Sneri Gordon, sem er 19 ára gamall, aftur á völlinn með U21-árs liði Liverpool í september síðastliðnum og hefur undanfarna mánuði æft með aðalliðinu.

Liverpool er þegar búið að tryggja sér sigur í E-riðli Evrópudeildarinnar og fær því nokkur fjöldi ungra leikmanna tækifærið í byrjunarliðinu í leiknum, sem hefst klukkan 17.45.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert