Royale Union Saint-Gilloise hafði betur gegn Liverpool, 2:1, þegar liðin áttust við í lokaumferð E-riðils Evrópudeildarinnar í knattspyrnu karla í Belgíu í kvöld.
Liverpool stillti upp sínu yngsta byrjunarliði í sögunni í Evrópukeppni og náði sér ekki á strik.
Mohamed Amoura kom Royale Union yfir eftir rúmlega hálftíma leik þegar hann slapp einn í gegn, Caoimhín Kelleher náði til boltans en hann datt aftur fyrir fætur Amoura sem kom boltanum í autt netið.
Jarell Quansah, tvítugur miðvörður, jafnaði metin fyrir Liverpool á 40. mínútu með sínu fyrsta marki fyrir liðið. Hann skoraði þá með föstu skoti utarlega úr vítateignum eftir hornspyrnu Curtis Jones frá hægri.
Áður en fyrri hálfleikur var úti kom Cameron Puertas liði Royale Union yfir á ný. Gott skot hans við vítateigslínuna vinstra megin hafnaði þá niðri í nærhorninu.
Puertas var aftur á skotskónum eftir rúmlega klukkutíma leik en markið var dæmt af vegna rangstöðu í aðdragandanum.
Fleiri urðu mörkin ekki og 2:1-sigur heimamanna staðreynd.
Í hinum leik riðilsins lagði Toulouse lið LASK Linz að velli, 2:1, tryggði sér þannig annað sætið í riðlinum og fer í útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar.
Liverpool var búið að vinna riðilinn fyrir leiki kvöldsins og fer því beint í 16-liða úrslit. Royale Union hafnaði í þriðja sæti og fer í Sambandsdeild Evrópu.
Í F-riðli hafði Villarreal betur gegn Rennes, 3:2, í hreinum úrslitaleik um efsta sæti riðilsins. Villarreal fer í 16-liða úrslit og Rennes í útsláttarkeppnina.
Maccabi Haifa lagði Panathinaikos að velli í Grikklandi, 2:1, tryggði sér þannig þriðja sætið í riðlinum og sæti í Sambandsdeildinni.
Hörður Björgvin Magnússon lék ekki með Panathinaikos vegna meiðsla.
Í G-riðli hafði Slavia Prag betur gegn Servette, 4:0, og Roma vann Sheriff Tiraspol 3:0.
Slavia vann riðilinn og fer beint í 16-liða úrslit, Roma fer í útsláttarkeppnina og Servetta fer í Sambandsdeildina.
Í H-riðli vann Bayer Leverkusen öruggan sigur á Molde, 5:1, lauk því leik með fullu húsi stiga, 18, og fer beint í 16-liða úrslit.
Qarabag lagði Häcken 2:1, tryggði sér þannig annað sætið og fer í útsláttarkeppnina á meðan Molde fer í Sambandsdeildina.
Valgeir Lunddal Friðriksson lék ekki með Häcken vegna meiðsla.