Eftir leiki gærkvöldsins í Meistaradeild karla í fótbolta liggur endanlega fyrir hvaða sextán lið komust í útsláttarkeppnina og hvernig þau geta dregist saman á mánudaginn kemur, 18. desember, þegar dregið verður til 16-liða úrslitanna.
Þar eru það sigurvegarar riðlanna sem eru í efri styrkleikaflokknum og eru liðin dregin gegn liðunum átta sem enduðu í öðru sæti í sínum riðlum. Lið frá sama landi geta þó ekki mæst á þessu stigi keppninnar.
Liðin sem eru eftir í keppninni eru þessi:
Efri styrkleikaflokkur:
Arsenal, Englandi
Atlético Madrid, Spáni
Barcelona, Spáni
Bayern München, Þýskalandi
Borussia Dortmund, Þýskalandi
Manchester City, Englandi
Real Madrid, Spáni
Real Sociedad, Spáni
Neðri styrkleikaflokkur:
FC Köbenhavn, Danmörku
Inter Mílanó, Ítalíu
Lazio, Ítalíu
Leipzig, Þýskalandi
Napoli, Ítalíu
París SG, Frakklandi
Porto, Portúgal
PSV Eindhoven, Hollandi
Eins og sjá má eru talsverðar líkur á að lið frá Spáni og Ítalíu mætist. Öll fjögur spænsku liðin unnu sína riðla og öll ítölsku liðin þrjú sem komust áfram urðu í öðru sæti.