Mark Clattenburg, fyrrverandi dómari í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, segir leikmenn ekki ánægða með notkun VAR vegna vantrausts í garð myndbandsdómgæslunnar.
„Vandamálið sem blasir við núna er að sem stendur treysta leikmennirnir ekki kerfinu.
Ég tel að stundum taki dómarar ekki ákvörðun á vellinum því þeir vita að tæknin ætti að sjá til þess að komist verði að réttri niðurstöðu,“ sagði Clattenburg í samtali við BBC Radio 5 Live.
„En þá kemur á móti spurningin: Er VAR að sjá til þess að réttar ákvarðanir eru teknar flestar vikur? Já, stundum, en stundum ekki. Það sem gerist er að það myndast kergja hjá leikmönnum.
Leikmennirnir eru svo mikið á nálum þar sem þetta er íþrótt sem reiðir sig á úrslit og því láta þeir reiði sína bitna á dómaranum,“ bætti hann við.
Clattenburg kvaðst af þessum sökum hafa áhyggjur af því að dómurum á hæsta stigi muni fækka vegna aukinna áreitni í garð þeirra í tengslum við VAR.