Stórt tap í síðasta leik Breiðabliks

Jason Daði Svanþórsson í fyrri leik liðanna á Laugardalsvelli í …
Jason Daði Svanþórsson í fyrri leik liðanna á Laugardalsvelli í október. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breiðablik tapaði illa gegn Zorya Luhansk frá Úkraínu, 4:0, í B-riðli Sambandsdeildar karla í fótbolta á Arena Lublin í Póllandi í kvöld. Þetta var lokaumferðin í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar og því ljóst að Breiðablik endar í fjórða sæti riðilsins án stiga.

Fyrsta markið kom strax á 2. mínútu leiksins en þá átti Anton Ari Einarsson sendingu frá marki sínu en sending hans fór beint á Anton Bol sem skallaði boltann upp völlinn beint á Eduardo Guerrero sem var einn á auðum sjó og setti boltann með hægri fætinum í netið frámhjá Antoni Ara í markinu.

Við fyrstu sýn virtist Guerrero vera rangstæður en eftir skoðun í VAR-herberginu var markið dæmt gott og gilt. Stuttu síðar fékk Davíð Ingvarsson tækifæri til að jafna metin en Oleksandr Saputin varði vel frá honum.

Á 11. mínútu leiksins varð svo Damir Muminovic fyrir því óláni að skora sjálfmark en Petar Micin átti þá sendingu fyrir mark Breiðabliks sem fór í Damir og inn. Aftur á móti var sóknarmaður Zorya fyrir aftan Damir og sá virtist vera í rangstöðu þegar sendingin kom fyrir markið en þrátt fyrir skoðun í VAR-herberginu var markið staðfest.  

Á 19. mínútu leiksins komst Zorya í 3:0 en þá handsamaði Oleksandr Saputin boltann í marki Zorya eftir aukaspyrnu Breiðabliks og kom honum strax í leik. Sparkaði boltanum á Dmytro Myshnyov sem sendi inn fyrir á Petar Micin sem fór framhjá Antoni Ara og renndi boltanum í netið.

Í kjölfarið kom fínn kafi hjá leikmönnum Breiðabliks en Kristinn Steindórsson og Viktor Karl Einarsson áttu báðir góðar tilraunir á markið og svo munaði ansi litlu að Jason Daði Svanþórsson minnkaði muninn á 30. mínútu leiksins en þá pressaði hann vel og fékk boltann í sig við markteiginn en Saputin í marki Zorya varði meistaralega vel frá honum.

Besta færi Breiðabliks í fyrri hálfleik fékk aftur á móti Davíð Ingvarsson á 39. mínútu en þá fékk hann góða sendingu inn á markteig frá Alexander Helga en skot Davíðs af stuttu færi fór yfir.

Í seinni hálfleik byrjuðu leikmenn Zorya betur og strax á 48. mínútu leiksins átti Eduardo Guerrero skot rétt yfir markið. Guerro átti reyndar aðra góða tilraun stuttu síðar en þá varði Anton Ari vel frá honum.

Kristinn Steindórsson var ansi nálægt því að skora fyrir Breiðablik á 63. mínútu leiksins en hann náði að komast framhjá tveimur varnarmönnum Zorya og var í góðu skotfæri en skot hans fór í varnarmann Zorya og útaf.  

Á 76. mínútu leiksins kom svo fjórða mark Zorya en þá átti Arsenii Batagov góða sendingu í gegnum hjarta varnarinnar hjá Breiðablik á Igor Gorbach sem setti boltann milli fóta Antons Ara og í netið. Kristófer Ingi Kristinsson fékk færi stuttu síðar en þá fékk hann sendingu inn fyrir vörn Zorya en Saputin varði vel frá honum. Það gerðist lítið eftir þetta og leikurinn hreinlega fjaraði út og öruggur sigur Zorya staðreynd.

Breiðablik fór því í gegnum riðlakeppni Sambandsdeildarinnar án þess að næla sér í stig en liðið tapaði öllum sex leikjum sínum í riðlinum. Þá er löngu tímabili lokið hjá Blikum en liðið lék alls 48 mótsleiki á árinu, sem er Íslandsmet. Sá fyrsti var gegn liði Víkings í Meistarakeppni KSÍ þann 4. apríl eða fyrir 254 dögum en þann leik vann Breiðablik 3:2.

Zorya 4:0 Breiðablik opna loka
90. mín. Zorya fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka