Tyrkneska knattspyrnusambandið hefur úrskurðað Faruk Koca, forseta Ankaragücü, í ótímabundið bann eftir að hann kýldi dómarann Halil Umut Meler í andlitið eftir leik karlaliðs Ankaragücü við Caykur Rizespor í úrvalsdeildinni í Tyrklandi á mánudagskvöld.
Leiknum lauk með jafntefli, 1:1, og þegar leikurinn var flautaður af hljóp Koca inn á völlinn og réðist á Meler, auk þess sem aðrir spörkuðu í dómarann er hann lá í grasinu. Leiddi þetta til þess að bein brotnaði í andliti Melers.
Koca var handtekinn fyrir líkamsárás á opinberan starfsmann og hefur Ankaragücü verið sektað um tvær milljónir líra, tæplega 9,5 milljónir íslenskra króna, vegna árásarinnar.
Þá hefur Ankaragücü verið gert að leika næstu fimm heimaleiki sína fyrir luktum dyrum.