Landsliðskonan fór á kostum - fimmta tvennan

Diljá Ýr Zomers skorar í sigri Íslands á Wales á …
Diljá Ýr Zomers skorar í sigri Íslands á Wales á dögunum. Ljósmynd/Alex Nicodim

Diljá Ýr Zomers, sem skoraði sitt fyrsta landsliðsmark er Ísland vann Wales í Þjóðadeildinni í síðustu viku, átti stórleik er OH Leuven vann öruggan 4:1-útisigur á Gent í efstu deild Belgíu í fótbolta í kvöld.

Eftir markalausan fyrri hálfleik fóru Diljá og Leuven á kostum í seinni hálfleik og skoraði hún annað mark síns liðs á 65. mínútu og fjórða markið á 74. mínútu. Þá lagði hún einnig upp þriðja mark liðsins. 

Diljá hefur nú skorað 12 mörk í fyrstu 11 leikjum sínum með Leuven í deildinni en þetta er í fimmta skipti sem hún skorar tvö mörk í leik á tímabilinu.

Leuven er í toppsæti deildarinnar með 31 stig eftir tólf leiki og með þrjá sigra í röð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert