Brasilíska liðið Fluminense leikur til úrslita um heimsbikar karla í knattspyrnu í Sádi-Arabíu á föstudaginn eftir sigur á Al Ahly frá Egyptalandi, 2:0, í undanúrslitum keppninnar í Jeddah í Sádi-Arabíu í kvöld.
Jhon Arias kom Fluminense yfir með marki úr vítaspyrnu á 71. mínútu og undir lok leiksins innsiglaði John Kennedy sigurinn með öðru marki.
Fluminense, sem er ríkjandi Suður-Ameríkumeistari, mætir annaðhvort Evrópumeisturum Manchester City frá Englandi eða Asíumeisturum Urawa Red Diamonds frá Japan sem eigast við annað kvöld.