Enski markahrókurinn Harry Kane sló enn eitt metið í þýsku 1. deildinni þegar hann skoraði tvívegis í 3:0-sigri Bayern München gegn Stuttgart í gærkvöldi.
Kane er nú búinn að skora 20 mörk í aðeins 14 deildarleikjum á sínu fyrsta tímabili fyrir Bæjara og er þar með langsamlega fljótastur í sögu þýsku 1. deildarinnar til að skora 20 deildarmörk.
Fyrra metið átti Uwe Seeler sem skoraði 20 mörk í fyrsta 21 leiknum með Hamburger SV tímabilið 1963-64 og næstur kom Erling Haaland með 20 mörk í 22 fyrstu leikjum Dortmund tímabilið 2020-21.
Bayern er eftir sigurinn áfram í öðru sæti, nú með 35 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Bayer Leverkusen. Bayern München á auk þess leik til góða.