Kicker gagnrýndi landsliðsfyrirliðann

Glódís Perla Viggósdóttir.
Glódís Perla Viggósdóttir. AFP/Franck Fife

Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu og Bayern München, var gagnrýnd af þýska miðlinum Kicker eftir jafntefli liðsins gegn Nürnberg í þýsku 1. deildinni í gær.

Leiknum lauk með jafntefli, 1:1, en Bayern komst yfir strax á 11. mínútu áður en Medina Desic jafnaði metin fyrir Nürnberg á 72. mínútu með marki úr vítaspyrnu.

Nürnberg fékk vítaspyrnu á 70. mínútu þegar Glódís Perla braut klaufalega á Vanessu Haim innan teigs.

„Viggósdóttir rak olnbogann í Haim þar sem lítil sem engin ógn stafaði af henni og Sina Diekmann, sem virkaði ekkert mjög örugg í aðgerðum sínum, benti á punktinn,“ sagði í umfjöllun Kicker um leikinn.

Bayern, sem er ríkjandi Þýskalandsmeistari, trónir á toppi deildarinnar með 24 stig en Wolfsburg, sem er í öðru sætinu með 22 stig, á leik til góða á Bæjara og fær Werder Bremen í heimsókn síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka