Knattspyrnustjóri Real Madrid, Carlo Ancelotti, hefur komið stjóra Barcelona til varnar eftir slakt gengi Barcelona undanfarið.
Lítið hefur gengið upp undanfarið hjá Barcelona sem er að hellast úr lestinni í spænsku 1. deildinni og er liðið nú í þriðja sæti deildarinnar, níu stigum á eftir Girona í toppsæti deildarinnar.
Barcelona er þó komið áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í fyrsta sinn síðan tímabilið 2020/21 og mætir þar sterku liði Napoli. Nokkur umræða hefur skapast um hvort Xavi sé rétti maðurinn í starfið en Ancelotti telur gagnrýnina vera eðlilega.
„Almennt er venjulegt að knattspyrnustjóri sæti gagnrýni. Við þurfum að sætta okkur við þetta og reyna að velta okkur ekki upp úr þessu. Knattspyrnustjórar eru gagnrýndir fyrir frammistöðu liðsins og fólk spáir ekki jafn mikið í æfingaaðferðum eða sambandi stjóranna við leikmennina. Xavi er frábær knattspyrnustjóri.“