Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Bosse Larsson er fallinn frá, 79 ára að aldri.
Þetta tilkynnti sænska félagið Malmö á heimasíðu sinni í morgun.
„Malmö er harmi slegið yfir fréttum af fráfalli Bosse Larsson. Hugur okkar er hjá ættingjum hans,“ sagði meðal annars í tilkynningu félagins.
Á ferli sínum lék Larsson lengst af fyrir uppeldisfélagið Malmö, skoraði 289 mörk í 546 leikjum fyrir liðið og er talinn einn allra besti leikmaður í sögu félagsins.
Einnig lék hann um skeið með Stuttgart í þýsku 1. deildinni við góðan orðstír.
Varð Larsson sænskur meistari sex sinnum, fjórum sinnum bikarmeistari og markakóngur í sænsku úrvalsdeildinni þrisvar sinnum.
Með sænska landsliðinu lék hann 70 leiki og skoraði 17 mörk. Tók Larsson þátt á þremur heimsmeistaramótum: árin 1970, 1974 og 1978.
Hann varð á sínum tíma fyrsti knattspyrnumaðurinn til að vinna Gullbolta sænska blaðsins Aftonbladet í tvígang.