Forráðamenn danska knattspyrnufélagsins FC Kaupmannahöfn eru tilbúnir að hlusta á tilboð í ungstirnið Roony Bardghji.
Roony er nýorðinn 18 ára gamall en skaust á stjörnuhimininn á þessu tímabili, hann skoraði sigurmark FC Kaupmannahafnar í 4:3 sigri liðsins á Manchester United í Meistaradeild Evrópu á tímabilinu og er ofarlega á lista hjá enska félaginu Chelsea.
Flest lið í ensku úrvalsdeildinni fylgjast grannt með stöðunni og er hann meðal annars á lista hjá Manchester United, Tottenham, Aston Villa, Newcastle og Brighton. Því er ljóst að hart verður barist um undirskrift þessa unga leikmanns þar sem lið í öðrum deildum hafa einnig áhuga á honum.
Bardghji er búinn að skora 11 mörk í 30 leikjum á þessu tímabili en hann hefur leikið með unglingaliði FC Kaupmannahafnar undanfarin þrjú ár, auk þess að hafa leikið átta leiki með sænska landsliðinu í fótbolta sem samanstendur af leikmönnum 21 árs og yngri.