Dýrt fyrir Svía að komast ekki á EM

Sænska karlalandsliðið hefur ekki náð sér á strik að undanförnu.
Sænska karlalandsliðið hefur ekki náð sér á strik að undanförnu. AFP/Jonathan Nackstrand

Sænska knattspyrnusambandið þarf að skera talsvert niður í sínum fjárhagsmálum í kjölfarið á því að liðið komst ekki í lokakeppni Evrópumóts karla sem fer fram næsta sumar.

Svíum tókst ekki að komast áfram úr sínum riðli í undankeppni EM og árangur þeirra í Þjóðadeildinni í fyrra var ekki nægilega góður til að þeir fengju sæti í umspilinu sem fer  fram í mars.

Knattspyrnusambandið hefur nú skýrt frá því á heimasíðu sinni að nýr framkvæmdastjóri, Andrea Möllerberg, hafi fengið það verkefni að skera fjárhagsáætlun sambandsins fyrir árið 2024 niður um 30 milljónir sænskra króna en það samsvarar rúmlega 400 milljónum íslenskum króna.

Þá kemur fram á síðunni að lagður verði til umtalsverður niðurskurður fyrir árið 2025.

Svíar hafa komist í lokakeppni EM sex sinnum í röð en verða ekki með í Þýskalandi næsta sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka