Knattspyrnumaðurinn Viðar Örn Kjartansson fékk í síðustu viku samningi sínum við búlgarska félagið CSKA 1948 Sofia rift eftir nokkurra mánaða dvöl og er því laus allra mála. Hafði hann samið við CSKA í sumar eftir ársdvöl hjá Atromitos í Grikklandi.
„Það er mjög einfalt. Ég kom þangað þegar ég var ekki búinn að spila frá því í mars í Aþenu. Svo kom ég rétt áður en deildin byrjaði, náttúrlega ekki í neitt rosalega góðu standi þannig að ég vissi að það myndi taka mig tíma að koma mér í gírinn.
Ég held að ég hafi aldrei lagt jafn mikið á mig síðan ég byrjaði í fótbolta við að koma mér í form eins og ég gerði þar. Svo átti ég einhvern veginn að koma inn á í leikjum og sanna mig á einhverju kortéri.
Ég var alltaf að bíða eftir því að byrja inn á. Ég er ekki beint leikmaður sem kemur inn á og breytir leikjum, ég hef aldrei verið þannig,“ segir Viðar Örn í samtali við Morgunblaðið, spurður hvers vegna hann hafi fengið samningnum rift.
Sóknarmaðurinn lék 13 leiki fyrir CSKA, flesta eftir að hafa komið inn á sem varamaður, og skoraði í þeim eitt mark.
„Mér fannst þetta bara allt of mikið og fannst stundum eins og það hefði verið búið að dæma mig af fyrstu tveimur leikjunum, þegar ég var ekki í neitt rosalega góðu standi.
Svo skora ég mitt fyrsta mark og hélt að allt væri að fara að gerast. Þá byrja ég næsta leik og skora ekki í honum og þá fer ég aftur á bekkinn. Þá hugsaði ég að annaðhvort væri ég hérna til að spila alla leiki eins og talað var um í byrjun eða ég færi,“ heldur Viðar Örn áfram.
Viðtalið við Viðar Örn má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.