Barcelona vann í kvöld 3:2-sigur á Almería í spænsku 1. deildinni í fótbolta. Var sigurinn kærkominn fyrir Börsunga eftir þrjá leiki í röð í öllum keppnum án sigurs.
Barcelona er nú í þriðja sæti með 38 stig, sex stigum á eftir toppliði Girona og fjórum á eftir Real Madrid í öðru sæti.
Brasilíumaðurinn Raphinha var í stuði hjá Barcelona því hann skoraði fyrsta markið á 33. mínútu og lagði upp annað markið á Sergi Roberto á 60. mínútu.
Þess á milli jafnaði Léo Baptistão á 41. mínútu. Edgar González jafnaði síðan í 2:2 á 71. mínútu.
Þannig var staðan fram að 83. mínútu er Roberto skoraði sitt annað mark, þriðja mark Barcelona og sigurmarkið.