Magni hættur störfum hjá Start

Magni Fannberg er farinn frá Start í Noregi.
Magni Fannberg er farinn frá Start í Noregi.

Magni Fannberg er hættur störfum sem íþróttastjóri norska knattspyrnufélagsins Start en frá þessu er greint á heimasíðu félagsins.

Magni kom til Start í febrúar 2022 og var samningsbundinn til ársloka 2024. Formaður félagsins, Magnus Skisland, segir að ekki hafi lengur verið forsendur fyrir hendi til þess að samstarfið gæti haldið áfram og því hafi verið sameiginleg niðurstaða að slíta því núna.

Mikil innanfélagsátök hafa verið hjá Start undanfarnar vikur, sérstaklega eftir að félagið klúðraði möguleikanum á að spila um sæti í norsku úrvalsdeildinni þegar leikur þess í umspili gat ekki farið fram vegna þess að ákveðið var að slökkva á hitakerfi heimavallar félagsins,  sem síðan var frosinn þegar kom að leiknum.

„Magni hefur lagt sig allan fram fyrir IK Start og hugmyndir hans hafa haft áhrif á hvernig félagið væri rekið. Hann var fljótur að byggja upp tengsl og traust gagnvart leikmönnum, starfsliði og stuðningsfólki. Stjórnin hefur haft í starfi íþróttastjóra sem hefur verið hreinskilinn og beinskeyttur og við höfum átt góðar og krefjandi umræður með honum á íþróttasviðinu. Við óskum honum alls hins besta," segir Skisland enn fremur.

Magni starfaði áður hjá AIK í Svíþjóð og Brann í Noregi en hann var þar á undan þjálfari hjá Brommapojkarna í Svíþjóð. Á Íslandi þjálfaði hann síðast lið Fjarðabyggðar árið 2008.

Vildi ekki vera hluti af vandamálinu

Magni greinir sjálfur frá ástæðunum fyrir brotthvarfi hans frá félaginu á samskiptamiðlinum X.

Þar segir hann meðal annars:

„Óróinn og átökin sem nú herja á Start gera mér ómögulegt að halda áfram starfi mínu sem íþróttastjóri. Ég skynja að nærvera mín á þátt í að viðhalda óróanum í félaginu og þar með er ég ekki góður starfskraftur fyrir félagið á þessari stundu. Ég get alls ekki lifað með því. Mér þykir of vænt um félagið og fólkið sem leggur hjarta sitt í félagið til að halda áfram og vera hluti af vandamálinu.

Ég ákvað því að hætta störfum hjá IK Start. Aðstæður eru ekki fyrir hendi til þess að félagið geti nýtt krafta mína. Ég mun nú fylgjast með félaginu utan frá. Ég hef fundið fyrir miklum stuðningi frá leikmönnunum, og fjölmörgum öðrum í félaginu. Þann stuðning tek ég með mér."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka