Enska dagblaðið The Guardian hefur tekið saman tíu eftirsóttustu leikmenn félagaskiptagluggans sem verður opnaður í byrjun árs.
Er ljóst að stærstu félög Englands hafa áhuga á að styrka sig í janúar. Hér fyrir neðan verður farið yfir tíu stóra bita á markaðinum.
Serhou Guirassy, Stuttgart
Framherjinn skoraði 14 mörk í fyrstu átta umferðunum í þýsku 1. deildinni. Eftir það hægðu meiðsli aðeins á honum, en Manchester United og Newcastle eru talin áhugasöm um leikmanninn. Leikur með Gíneu á Afríkumótinu í janúar sem gæti flækt hlutina.
Kalvin Phillips, Manchester City
Hefur fengið 18 mánuði til að vinna sér inn sæti í byrjunarliði Evrópumeistaranna en það hefur ekki tekist. Þarf að skipta um félag til að spila með enska landsliðinu á EM næsta sumar. Juventus, Newcastle og Crystal Palce vilja fá hann að láni.
Santiago Giménez, Feyenoord
Skoraði 31 mark í hollensku úrvalsdeildinni á árinu 2023 og bætti met Luis Suárez. Hann gæti fylgt í fótspor Úrúgvæans og farið í ensku úrvalsdeildina, þar sem Tottenham, Chelsea, Arsenal og Fulham eru öll áhugasöm.
Ivan Toney, Brentford
Raðaði inn mörkum í ensku úrvalsdeildinni áður en hann fór í bann fyrir brot á veðmálareglum. Banninu lýkur 16. janúar og Arsenal, Chelsea og Tottenham hafa öll áhuga á leikmanninum, þrátt fyrir bannið.
Viktor Gyökeres, Sporting
Búinn að skora 17 mörk í 20 leikjum á leiktíðinni eftir að hann gerði mjög góða hluti með Coventry í ensku B-deildinni. Er með 100 milljón evra klásúlu, en Arsenal, Chelsea og AC Milan eru þrátt fyrir það áhugasöm.
André, Flumiense
Fulham er komið langt á leið með að kaupa brasilíska miðjumanninn knáa en stærri félög gætu skemmt þau áform. Hann sagði á dögunum að enska úrvalsdeildin væri draumurinn. Er 22 ára og hefur leikið fjóra leiki með brasilíska A-landsliðinu.
Jadon Sancho, Manchester United
Er úti í kuldanum hjá Manchester United eftir rifrildi við knattspyrnustjórann Erik ten Hag. Lék gríðarlega vel með Dortmund áður en hann sneri aftur til Englands og félög á borð við Leipzig, Leverkusen, Barcelona og Juventus vilja fá sóknarmanninn í sínar raðir.
Lloyd Kelly, Bournemouth
Hefur átt stóran þátt í góðu gengi Bournemouth á leiktíðinni og stærri félög eru byrjuð að fylgjast vel með honum. Á 18 mánuði eftir af samningi sínum við Bournemouth og Liverpool og Tottenham fylgjast vel með gangi mála.
Aaron Ramsdale, Arsenal
Átti flott síðasta tímabil með Arsenal en þrátt fyrir það fékk félagið David Raya til sín. Er ósáttur á bekknum og Chelsea og Newcastle eru á meðal félaga sem eru að skoða landsliðsmarkvörðinn enska.
Lamine Camara, Metz
Er aðeins 19 ára en undir smásjá hjá mörgum félögum. Gekk í raðir Metz í Frakklandi í febrúar á þessu ári en gæti skipt aftur í janúar á komandi ári. Hefur verið líkt við Kevin De Bruyne og Toni Kroos. Brighton og Chelsea eru líkleg.