Bar vitni gegn fyrrverandi forsetanum

Jennifer Hermoso kemur úr réttarsalnum í Madríd í dag.
Jennifer Hermoso kemur úr réttarsalnum í Madríd í dag. AFP/Pierre-Philippe Marcou

Spænska knattspyrnukonan Jennifer Hermoso mætti í dag fyrir rétt í Madríd til að bera vitni gegn Luis Rubiales, fyrrverandi forseta spænska knattspyrnusambandsins.

Þar lýsti hún fyrir luktum dyrum sínu sjónarhorni af kossinum margumtalaða þegar Rubiales kyssti hana á munninn við verðlaunaafhendinguna á heimsmeistaramótinu í Ástralíu og Nýja-Sjálandi síðasta sumar, er spænska liðið tók við gullverðlaunum sínum.

Hermoso kærði Rubiales formlega í september fyrir kynferðislega áreitni. Hún hefur áður skýrt frá því að Rubiales og samstarfsfólk hans hafi reynt að þvinga hana og fjölskyldu hennar til að gera minna úr atvikinu.

Í kjölfarið á þessu neyddist Rubiales að segja af sér sem forseti knattspyrnusambandsins, og sem varaforseti UEFA, en hann var síðan settur í bann frá afskiptum af fótbolta af Alþjóða knattspyrnusambandinu, FIFA.

Rubiales gæti fengið allt að fjögurra ára fangelsi, samkvæmt saksóknara í Madríd.

„Þetta  gekk allt vel. Ég óska ykkur gleðilegs nýs árs. Nú er allt í höndum dómsvaldsins," sagði Hermoso við fréttamenn þegar hún kom úr réttarsalnum, samkvæmt íþróttadagblaðinu Marca.

Hermoso var í fréttunum fyrir fleira í dag því hún hefur nú skipt um félag í mexíkóska fótboltanum. Þar hefur hún leikið með Pachuca en er nú gengin til liðs við Tigres. Áður spilaði hún með Barcelona, Atlético Madrid og Rayo Vallecano á Spáni og Tyresö í Svíþjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert