Freyr fer frá Lyngby til Belgíu

Freyr Alexandersson fagnar með stuðningsfólki Lyngby eftir ævintýralega björgun frá …
Freyr Alexandersson fagnar með stuðningsfólki Lyngby eftir ævintýralega björgun frá falli síðasta vor. Ljósmynd/Lyngby BK

Knattspyrnuþjálfarinn Freyr Alexandersson er á förum frá Lyngby í Danmörku til að taka við belgíska félaginu Kortrijk.

Danskir fjölmiðlar skýra frá þessu í dag og bold.dk segir að samkvæmt heimildum sínum greiði Kortrijk danska félaginu um tvær milljónir danskra króna, um 40 milljónir íslenskra króna, til að losa hann undan samningi en Freyr var samningsbundinn Lyngby til 2025.

Fram kemur að Freyr fari til Belgíu í dag til að ganga frá samningum við Kortrijk sem situr á botni A-deildarinnar þar í landi og er í mjög slæmri stöðu, svipaðri og Lyngby var í síðasta vetur en þá bjargaði liðið sér frá falli úr dönsku úrvalsdeildinni á ævintýralegan hátt.

Freyr stýrði Lyngby upp í dönsku úrvalsdeildina á fyrsta tímabili sínu þar og hélt svo liðinu uppi á síðasta tímabili.  Hann mun nú skilja við Lyngby í sjöunda sæti af tólf liðum í úrvalsdeildinni.

Undir hans stjórn hefur Lyngby orðið mikið Íslendingafélag en með því spila nú Gylfi Þór Sigurðsson, Andri Lucas Guðjohnsen, Kolbeinn Birgir Finnsson og Sævar Atli Magnússon.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert