Nýtt félag Freys rekur þjálfara títt

Freyr Alexandersson er að skipta yfir til Belgíu.
Freyr Alexandersson er að skipta yfir til Belgíu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Freyr Alexandersson verður næsti þjálfari karlaliðs Kortrijk í fótbolta, en belgíska félagið ætlar að kaupa hann af danska félaginu Lyngby þar sem íslenski þjálfarinn hefur náð eftirtektarverðum árangri.

Er óhætt að segja að Freyr sé á leiðinni í krefjandi starfsumhverfi. Liðið hefur leikið níu deildarleiki í röð án sigurs og er í neðsta sæti efstu deildar með aðeins tíu stig eftir 20 leiki.

Þá hafa forráðamenn félagsins verið afar duglegir við að reka þjálfara á undanförnum árum. Freyr verður þriðji þjálfari liðsins á þessari leiktíð. Félagið rak Edward Still í september og svo eftirmann hans Glen De Boeck fyrir mánuði.

Þá hefur sautján sinnum verið skipt um þjálfara á síðustu tíu árum og eru þá ekki taldir með tímabundnir stjórar.

Malasíumaðurinn Vincent Tan er eigandi Kortrijk, en hann átti áður velska félagið Cardiff og m.a. þegar það var í ensku úrvalsdeildinni. Aron Einar Gunnarsson lék með Cardiff þegar Tan var við stjórn hjá félaginu.

Á meðal þess fyrsta sem Tan gerði þegar hann tók við belgíska félaginu var að kaupa landa sinn Luqman Shamsudin, sem Njarðvík fékk óvænt til sín fyrir síðustu leiktíð að láni. Hann er enn samningsbundinn belgíska félaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert