Freyr skrifaði undir í Belgíu

Freyr Alexandersson er tekinn við stjórnartaumunum hjá Kortrijk.
Freyr Alexandersson er tekinn við stjórnartaumunum hjá Kortrijk. Ljósmynd/KV Kortrijk

Belgíska knattspyrnufélagið Kortrijk hefur tilkynnt um ráðningu Freys Alexanderssonar sem nýs þjálfara karlaliðsins. Skrifaði hann undir tveggja og hálfs árs samning, til sumarsins 2026.

Freyr lét af störfum hjá Lyngby í gær eftir tveggja og hálfs árs starf.

Kortrijk situr á botni A-deildarinnar í Belgíu og er í mjög slæmri stöðu, svipaðri og Lyngby var í síðasta vetur en þá bjargaði liðið sér frá falli úr dönsku úrvalsdeildinni á ævintýralegan hátt.

Freyr stýrði Lyngby upp í dönsku úrvalsdeildina á fyrsta tímabili sínu þar og hélt svo liðinu uppi á síðasta tímabili. Hann skilur við Lyngby í sjöunda sæti af tólf liðum í úrvalsdeildinni.

Jonathan Hartmann, sem var aðstoðarþjálfari Freys hjá Lyngby, fylgir honum til Belgíu og skrifaði einnig undir samning til sumarsins 2026.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert