Hollenska knattspyrnufélagið Ajax er tilbúið til að gera Jordan Henderson að launahæsta leikmanninum í sögu þess, takist því að fá hann frá Al-Ettifaq í Sádi-Arabíu.
Fyrr í dag sagði Daily Mail að Henderson myndi ekki komast frá sádiarabíska liðinu í janúar eins og hann væri að reyna.
Hollenskir fjölmiðlar, sem og Sky Sports, segja hins vegar að mögulegt verði að fá fyrrverandi fyrirliða Liverpool strax, fallist Al-Ettifaq á að selja hann. Lánssamningur sé hins vegar alveg úr sögunni.
Ajax hefur ávallt unnið eftir ströngum reglum um hámarkslaun leikmanna sinna, fimm milljónir punda sé hámarkið sem miðað við sé, en sérfræðingur Sky Sports í Hollandi segir að félagið sé tilbúið til að gera undanþágu á því í tilfelli Hendersons og greiða honum hærri laun en til þessa hefur verið gert, enda sjái forráðamenn Ajax fyrir sér að hann geti verið leiðtogi liðsins næstu árin.