Jordan Henderson, fyrrverandi fyrirliði Liverpool, fær ekki að yfirgefa Al-Ettifaq í Sádi-Arabíu núna í janúarmánuði eins og búist hafði verið við.
Henderson hefur sýnt mikinn áhuga á því að komast aftur til Englands eftir hálft tímabil í Sádi-Arabíu, og þá hefur hann verið orðaður við bæði Ajax í Hollandi og Juventus á Ítalíu.
Daily Mail segir í dag að Al-Ettifaq vilji ekki sleppa Henderson frá sér á miðju tímabili en talið er að það dragi verulega úr möguleikum hans á að komast í enska landsliðshópinn fyrir EM í sumar.
Henderson leikur undir stjórn Stevens Gerrards, síns gamla liðsfélaga hjá Liverpool, með sádi-arabíska liðinu sem er í áttunda sæti af átján liðum þegar deildin þar í landi er rétt ríflega hálfnuð.