Gylfi Þór á leið til Belgíu?

Gylfi Þór Sigurðsson og Freyr Alexandersson.
Gylfi Þór Sigurðsson og Freyr Alexandersson. Ljósmynd/Lyngby

„Ég hef rætt við Gylfa eftir að ég tók við Kortrijk,“ sagði knattspyrnuþjálfarinn Freyr Alexandersson í samtali við mbl.is.

Freyr, sem er 41 árs gamall, tók nokkuð óvænt við stjórnartaumunum hjá Kortrijk í belgísku A-deildinni í byrjun janúarmánaðar eftir að hafa stýrt Lyngby í dönsku úrvalsdeildinni frá því í júní árið 2021.

Gylfi Þór, sem er 36 ára gamall, er sem stendur án félags en hann er að jafna sig af meiðslum og er í endurhæfingu á Spáni þessa dagana.

Alltaf í góðu sambandi

„Við erum alltaf í góðu sambandi og það eru nokkrir dagar síðan ég heyrði í honum síðast,“ sagði Freyr þegar hann var spurður að því hvort hann hefði rætt við Gylfa um að ganga til liðs við belgíska félagið.

Gylfi tók fram skóna á nýjan leik í ágúst á síðasta ári og samdi þá við Lyngby þar sem Freyr var þjálfari.

„Ef að Gylfi Þór Sigurðsson vill koma til Kortrijk, og er heill heilsu, þá tek ég honum opnum örmum,“ bætti þjálfarinn við í samtali við mbl.is.

Ítarlegt viðtal við Frey Alexandersson birtist á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert