Lánssamningur íslensku landsliðskonunnar Svövu Rós Guðmundsdóttur hjá portúgölsku meisturunum í Benfica er á enda runninn.
Svava Rós gekk til liðs við Benfica að láni frá bandaríska félaginu Gotham síðastliðið haust en náði aðeins að koma við sögu í tveimur leikjum með portúgalska liðinu.
Meiddist sóknarmaðurinn alvarlega þegar hún fór úr mjaðmarlið og tókst ekki að spila aftur fyrir Benfica.
Benfica tilkynnti á dögunum að lánssamningur Svövu Rósar hafi runnið út í lok janúarmánaðar.
Því er hún komin aftur til Gotham, sem Svava Rós samdi við fyrir rúmu ári en fékk lítið að spreyta sig hjá. Á hún eitt ár eftir af samningi sínum hjá bandaríska félaginu.