Hef í raun lært að labba upp á nýtt

Svava Rós Guðmundsdóttir er hún gekk til liðs við Benfica.
Svava Rós Guðmundsdóttir er hún gekk til liðs við Benfica. Ljósmynd/Benfica

„Heilsan er svona upp og niður. Ég var á hækjum í átta til níu vikur og eiginlega bara rúmliggjandi,“ segir Svava Rós Guðmundsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið.

Svava Rós gekk til liðs við Portúgalsmeistara Benfica að láni frá bandaríska félaginu Gotham þann 20. september síðastliðinn. Stuttu síðar, í aðeins öðrum leik sínum fyrir Benfica, varð hún fyrir því óláni að fara úr mjaðmarlið.

„Núna hef ég í rauninni verið að læra að ganga upp á nýtt. Þegar maður fer úr mjaðmarlið gerist allt mjög hægt.

Planið er að byrja að hlaupa í þessum mánuði. Ég er ekki komin mikið lengra en það. Það eru enn nokkrir mánuðir í að ég geti spilað fótbolta,“ útskýrir Svava Rós.

Hún er 28 ára gömul og hefur leikið sem atvinnumaður frá árinu 2018, með Röa í Noregi, Kristianstad í Svíþjóð, Bordeaux í Frakklandi, Brann í Noregi og Gotham í Bandaríkjunum, þar sem hún er samningsbundin út þetta ár. Hún lék með Val og Breiðabliki áður en hún fór fyrst til Noregs.

Lánssamningurinn við Benfica rann út í lok janúarmánaðar, en hvernig atvikaðist það að hún fór úr mjaðmarlið í leik með liðinu?

„Ég var að hlaða í skot, teygði mig eftir boltanum og lenti þannig að ég festist einhvern veginn í grasinu.

Líkaminn heldur hins vegar áfram, þannig að þetta bara losnar. Ég átta mig í rauninni ekki alveg á því hvernig þetta gerðist,“ segir Svava Rós.

Aldrei séð svona meiðsli

Spurð hvort hún hafi þurft að gangast undir skurðaðgerð vegna meiðslanna segir Svava Rós:

„Nei, en það þurfti að fylgjast mjög vel með þessu. Ég fór í myndatöku á um það bil sex vikna fresti til þess að athuga hvernig gróandinn væri í þessu.

Læknarnir sögðu alveg fram að jólum að þeir gætu alltaf gripið inn í og sett mig í aðgerð en vildu samt sjá hvort þetta myndi ekki gróa af sjálfu sér,“ heldur hún áfram.

Viðtalið við Svövu Rós má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert