Niðurstöðu að vænta í lok mánaðar

Dani Alves í réttarsal í Barcelona.
Dani Alves í réttarsal í Barcelona. AFP/Alberto Estévez

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Dani Alves bar vitni fyrir rétti í Barcelona á Spáni þar sem hann hefur setið í fangelsi í rúmt ár, grunaður um nauðgun.

Reuters greinir frá því að hinn fertugi Alves hafi fyrst verið rólegur í fasi þegar hann bar vitni en svo hafi tárin tekið að streyma niður kinnar hans.

Alves fullyrti að hann hafi hitt konuna sem sakar hann um nauðgun á skemmtistað í Barcelona í lok árs 2022. Þau hafi farið saman á salerni á staðnum og stundað kynlíf, með samþykki beggja að hans sögn.

Saksóknari spurði Alves beint hvort hann hefði þvingað konuna til samræðis, líkt og hún bar vitni um á mánudag.

„Aldrei nokkurn tímann. Ég er ekki þannig manneskja. Ég er ekki ofbeldismaður,“ svaraði Alves.

Vitnaleiðslum er nú lokið og greinir The Athletic frá því að dómur verði kveðinn upp þann 27. febrúar næstkomandi.

Saksóknarar fara fram á að Alves sæti níu ára fangelsisvist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert