Íslendingarnir allt í öllu í Þýskalandi

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, Diljá Ýr Zomers, Alexandra Jóhannsdóttir og Selma …
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, Diljá Ýr Zomers, Alexandra Jóhannsdóttir og Selma Sól Magnúsdóttir fagna marki í leik með íslenska landsliðinu. Ljósmynd/Alex Nicodim

Landsliðskonurnar Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Selma Sól Magnúsdóttir fóru mikinn í liðum sínum þegar Bayer Leverkusen lagði Nürnberg að velli, 2:1, í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Karólína Lea, sem leikur með Leverkusen að láni frá Þýskalandsmeisturum Bayern München, lagði upp fyrsta mark leiksins fyrir Melissu Friedrich eftir tæplega hálftíma leik.

Selma Sól Magnúsdóttir jafnaði hins vegar metin fyrir Nürnberg snemma í síðari hálfleik. Var þetta hennar fyrsta mark fyrir liðið.

Eftir tæplega klukkutíma leik lagði Karólína Lea svo upp sigurmark Leverkusen þegar Emilie Bragstad komst á blað.

Karólína Lea lék allan leikinn á miðju Leverkusen og Selma Sól allan leikinn á miðju Nürnberg.

Leverkusen fór með sigrinum upp í sjötta sæti deildarinnar, þar sem liðið er með 20 stig.

Nürnberg er enn í 11. og næstneðsta sæti með átta stig, tveimur stigum frá öruggu sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert