Albert kostar rúma fimm milljarða

Albert Guðmundsson í leik með Genoa.
Albert Guðmundsson í leik með Genoa. AFP

Áhugasöm félög þurfa að reiða fram dágóða summu ætli þau sér að festa kaup á íslenska knattspyrnumanninum Alberti Guðmundssyni, leikmanni Genoa, í sumar.

Upphæðin sem Genoa vill fá hefur hækkað töluvert að undanförnu þar sem ítalskir miðlar greindu frá því í janúar að félagið myndi hlusta á tilboð sem næmi um 25 milljónum evra, 3,8 milljörðum íslenskra króna.

Fiorentina bauð 22 milljónir evra undir lok janúargluggans en Genoa hafnaði því tilboði og vildi þá fá 30 milljónir evra. Sú upphæð hefur nú hækkað upp í 35 milljónir evra, rúmlega 5,2 milljarða íslenskra króna, og gæti jafnvel ekki reynst nóg.

„Ef okkur berst tilboð í kringum 35 milljónir evra í sumar munum við íhuga það,“ hefur Football Italia Andrés Blázquez, framkvæmdastjóra Genoa.

Calciomercato greinir frá því að ítölsku stórliðin Juventus, AC Milan, Napoli og Fiorentina séu öll áhugasöm um Albert.

Í ensku úrvalsdeildinni eru Tottenham Hotspur, Aston Villa og Newcastle United áhugasöm um sóknarmanninn, sem hefur skorað níu mörk og lagt upp önnur tvö í 22 deildarleikjum fyrir Genoa á tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert