Ronaldo rannsakaður fyrir meintan dónaskap (myndskeið)

Cristiano Ronaldo fagnar marki sínu fyrir Al-Nassr í gær.
Cristiano Ronaldo fagnar marki sínu fyrir Al-Nassr í gær. AFP/Fayez Nureldine

Knattspyrnusamband Sádi-Arabíu hyggst rannsaka framferði portúgölsku stjörnunnar Cristiano Ronaldo eftir 3:2-sigur Al-Nassr á Al-Shabab í efstu deild þar í landi í gær.

Ronaldo skoraði eitt marka Al-Nassr og er nú búinn að skora 22 mörk í 20 deildarleikjum á tímabilinu, þar sem liðið er í öðru sæti á eftir Al-Hilal.

Eftir leikinn í gær hrópuðu stuðningsmenn hástöfum „Messi!“ og vísuðu þar til Argentínumannsins Lionels Messis, sem er jafnan sá sem er borinn saman við Ronaldo þegar rætt er um tvo bestu leikmenn síðustu tveggja áratuga og í knattspyrnusögunni.

Ronaldo brást við þessum hrópum stuðningsmanna Al-Shabab með ímynduðum strokum í grennd við klof sitt og fullyrðir sádiarabíska dagblaðið Asharq al-Awsat að sádiarabíska knattspyrnusambandið muni rannsaka atvikið.

Ronaldo hefur áður sætt gagnrýni fyrir dónaskap eftir leiki með Al-Nassr. Í apríl á síðasta ári greip hann um klof sitt þegar hann gekk til búningsklefa eftir 2:0-tap fyrir Al-Hilal.

Fyrr í þessum mánuði sást til hans þegar hann tók Al-Hilal-trefil sem hafði verið kastað inn á völlinn, tróð honum inn fyrir stuttbuxur sínar og fleygði treflinum svo burt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert