Þessi leikur var stórslys fyrir mig

Sverrir Ingi Ingason kom til Midtjylland í sumar frá PAOK …
Sverrir Ingi Ingason kom til Midtjylland í sumar frá PAOK í Grikklandi. Ljósmynd/Midtjylland

Sverrir Ingi Ingason, landsliðsmaður í knattspyrnu, átti sannkallaðan martraðarleik í gær þegar hann fékk á sig tvær vítaspyrnur og rautt spjald í leik með Midtjylland gegn AGF í dönsku úrvalsdeildinni.

Midtjylland missti annan leikmann af velli og var með níu menn síðasta korterið en tókst samt að skora sigurmark í uppbótartíma á útivelli, 3:2.

„Fyrir mig sjálfan var þessi leikur stórslys. Ég brást liðinu, með alla mína reynslu á ég ekki að fá á mig tvær vítaspyrnur. Hvort ég sé sammála dómunum eða telji spjöldin sanngjörn skiptir ekki máli, það er dómarans að ákveða. Ég var rekinn af velli og gaf tvær vítaspyrnur þannig að ég þakkaði liðsfélögum mínum kærlega fyrir og sagði þeim að þetta hefði verið ótrúlega frammistaða,“ sagði Sverrir við Tipsbladet eftir leikinn.

„Ég sat inni í búningsklefanum og var miður mín. Þá kom einn af starfsmönnum okkar og sagði að við værum komnir í 3:2. Ég trúði því ekki, hélt að hann væri að grínast, en hljóp út og sá tvær síðustu mínúturnar, og á þeim tíma sá ég tvær VAR-myndbandsskoðanir.

Þetta er einhver ótrúlegasti leikur sem ég hef tekið þátt í,“ sagði Sverrir Ingi sem fer nú í eins leiks bann.

Ekki fjárfestingarinnar virði

Tipsbladet gaf Sverri lægstu einkunn leikmanna liðanna. „Sverrir Ingi Ingason kostaði Midtjylland meira en 20 milljónir króna (danskra), en hefur hingað til ekki verið fjárfestingarinnar virði. Í fyrri hálfleik fékk hann á sig klaufalega vítaspyrnu gegn Mikael Anderson og í seinni hálfleik aðra klaufalega gegn Nicolai Poulsen. Bæði brot þýddu gult spjald og kostuðu bæði mark. Heimskulegt af svona reyndum leikmanni,“ sagði í umsögn blaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert