Landsliðsmaður í öndunarvél

Kristoffer Olsson í leik með Midtjylland gegn Manchester United árið …
Kristoffer Olsson í leik með Midtjylland gegn Manchester United árið 2016. AFP

Sænski knattspyrnumaðurinn Kristoffer Olsson, leikmaður danska úrvalsdeildarfélagsins Midtjylland, dvelur nú á sjúkrahúsi þar sem honum er haldið í öndunarvél eftir að hafa hnigið niður á heimili sínu.

Olsson, sem er 28 ára gamall landsliðsmaður Svíþjóðar, varð fyrir bráðum veikindum á heila að því er kemur fram í tilkynningu frá Midtjylland.

Var hann fluttur á háskólasjúkrahúsið í Árósum fyrir viku síðan.

Fann Midtjylland, sem íslenski landsliðsmaðurinn Sverrir Ingi Ingason leikur með, sig knúið til að senda frá sér tilkynningu vegna ýmissa orðróma og getgátna um fjarveru Olssons undanfarna viku.

„Allir hjá FC Midtjylland eru vitanlega í áfalli yfir skyndilegum veikindum Kristoffers. Kristoffer Olsson virðist þjást af bráðum veikindum á heila sem koma hvorki til af neinni tegund sjálfsskaða né ytri þáttum.

Teymi danskra lækna í fremstu röð vinnur nú undir pressu við að finna nákvæma greiningu á meininu og koma á fót réttri meðferð,“ sagði í tilkynningunni.

Miðjumaðurinn á að baki 47 A-landsleiki fyrir Svíþjóð og hóf meistaraflokksferilinn hjá Arsenal, þar sem hann lék einn leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert