Heimir styður Greenwood

Mason Greenwood og Heimir Hallgrímsson.
Mason Greenwood og Heimir Hallgrímsson. AFP

Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari karlaliðs Jamaíku í knattspyrnu, hefur ítrekað hrifningu sína á sóknarmanninum Mason Greenwood.

Greenwood á einn A-landsleik að baki fyrir England, gegn Íslandi í Þjóðadeild UEFA haustið 2020.

Þrátt fyrir að um keppnisleik hafi verið að ræða er nógu langt um liðið til þess að hann geti skipt um ríkisfang, en Greenwood á ættir að rekja til Jamaíku.

Hefur rætt við Greenwood

Heimir hefur áður sagst vilja fá hann til að spila fyrir jamaíska landsliðið. Í samtali við The Athletic kveðst Eyjamaðurinn hafa rætt við Greenwood um möguleikann á að hann skipti um ríkisfang og hefji að spila fyrir Jamaíku.

„Ég vil eiginlega ekki tala um hvað ef en auðvitað erum við að hugsa um það. Ég myndi elska að hafa hann í liðinu mínu.

Eins og allir aðrir þjálfarar vil ég hafa bestu mögulegu leikmenn í liði mínu, en þetta er alltaf undir leikmanninum sjálfum komið,“ sagði Heimir.

Verra en ég get ímyndað mér

Í janúar árið 2022 var Greenwood handtekinn og skömmu síðar ákærður fyrir tilraun til nauðgunar, líkamsárás og líflátshótanir í garð kærustu sinnar. Í febrúar á síðasta ári var málið látið niður falla þegar lykilvitni dró sig í hlé.

Heimir vildi ekki tjá sig um ákærurnar en kvaðst finna til með Greenwood.

„Ég horfi bara á manneskjuna. Ég held að það sem hann gekk í gegnum á einu og hálfu ári sé verra en ég get ímyndað mér, að vera endalaust í blöðunum og á samfélagsmiðlum.

Ég er feginn að hann er snúinn til baka því þetta hefur líklega verið áfall. Að minnsta kosti styð ég hann,“ sagði Heimir.

Greenwood er á láni hjá Getafe frá Manchester United, þar sem hann hefur skorað átta mörk og gefið fimm stoðsendingar í 26 leikjum í öllum keppnum á tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert