Við erum alltaf sigurstranglegastir

Eduardo Camavinga í leik með Real Madríd um helgina.
Eduardo Camavinga í leik með Real Madríd um helgina. AFP/Pierre-Philippe Marcou

Franski knattspyrnumaðurinn Eduardo Camavinga er kokhraustur fyrir EM 2024 í Þýskalandi í sumar þar sem hann segir Frakkland ávallt vera sigurstranglegast á stórmótum.

„Það er draumur allra Frakka að vinna EM. Auðvitað vil ég það líka. Við erum alltaf sigurstranglegastir á stórmótum.

Við erum með sterkt lið sem samanstendur af yngri og aðeins eldri leikmönnum sem spila fyrir stærstu félög Evrópu.

Mótið fer fram í Þýskalandi en ég er viss um að við fáum ríkan stuðning,“ sagði Camavinga í samtali við franska knattspyrnumiðilinn Téléfoot.

Ólympíuleikarnir líka markmið

Camavinga er 21 árs miðjumaður Real Madríd og er því gjaldgengur í U23-ára lið Frakka á Ólympíuleikunum í París.

Hefur hann áhuga á því að taka þátt á leikunum.

„Ólympíuleikarnir eru líka markmið, sérstaklega þar sem þeir fara fram í Frakklandi.

Það er ekki á hverjum degi sem maður fær tækifæri til að taka þátt á Ólympíuleikunum en fyrst og fremst hugsum við um EM og sjáum svo hvað gerist,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert