Brasilíski knattspyrnumaðurinn Juan Jesus, varnarmaður Napoli, er ekki ánægður með ummæli Francesco Acerbi, varnarmanns Inter, þar sem sá síðarnefndi neitar að hafa beitt þann fyrrnefnda kynþáttaníði.
Jesus sakaði Acerbi um kynþáttaníð á meðan leik liðanna í ítölsku A-deildinni stóð um síðustu helgi. Af þeim sökum var hann tekinn úr ítalska landsliðshópnum.
„Ég viðhafði engin rasísk ummæli. Ég hef spilað fótbolta í 20 ár og veit hvað ég segi. Ýmislegt gerist á vellinum en þegar dómarinn flautar til leiksloka þá tökumst við í hendur og allt verður eins og það var.
Kynþáttahatur á sér hvergi stað í heiminum. Mér þykir leitt að ég hafi þurft að yfirgefa æfingabúðir landsliðsins en svona var þetta og það er satt,“ sagði Acerbi á fréttamannafundi.
Málið er nú til rannsóknar hjá aganefnd ítölsku A-deildarinnar. Verði Acerbi fundinn sekur um kynþáttaníð gæti hann átt yfir höfði sér tíu leikja bann. Hann hefur leikið 34 landsleiki fyrir Ítalíu.
„Fyrir mína parta lauk málinu í gær [á sunnudag] á vellinum þar sem Acerbi baðst afsökunar og satt að segja hefði ég heldur viljað sleppa því að snúa aftur til svona viðbjóðslegs atviks sem ég mátti upplifa.
En í dag las ég ummæli Acerbis sem eru í hrópandi ósamræmi við það sem raunverulega gerðist. Það eru til myndræn sönnunargögn fyrir því sem hann sagði á vellinum og varalestur sýnir á óyggjandi hátt að hann biðst forláts.
Ég sætti mig ekki við þetta. Baráttan gegn kynþáttahatri á sér stað hér og nú. Acerbi sagði við mig: „Farðu burt svarti, þú ert bara negri.“ Eftir að ég kom mótmælum á framfæri við dómarann viðurkenndi hann að hafa haft rangt við og baðst afsökunar.
Hann bætti við að honum þætti „negri“ vera eins og hver önnur móðgun. Í dag breytti hann útgáfu sinni af atburðinum og segist ekki hafa viðhaft kynþáttafordóma. Ég hef ekkert meira að segja,“ skrifaði Jesus í yfirlýsingu sem hann birti á samfélagsmiðlum sínum.