Lögreglan í Madríd á Spáni gerði húsleit í höfuðstöðvum Knattspyrnusambands Spánar og íbúð í eigu fyrrverandi forseta þess, Luis Rubiales, í gær vegna rannsóknar á meintri spillingu.
Fréttaveitan Reuters greinir frá því að sjö hafi verið handteknir, fimm í Madríd og tveir í Granada, en nöfn þeirra hafa ekki verið gefin upp.
Rannsóknin snýr að meintri spillingu í tengslum við ákvörðun spænska sambandsins að færa meistarakeppni Spánar til Sádi-Arabíu.
Spænskur dómstóll hefur frá því í júní árið 2022 rannsakað hvort Rubiales hafi framið glæp er hann gerði samning við Kosmos, fyrirtæki fyrrverandi knattspyrnumannsins Gerard Pique, um að færa keppnina frá Spáni til Sádi-Arabíu.
Í yfirlýsingu frá spænska sambandinu segir að allir hjá því hafi þungar áhyggjur vegna húsleitarinnar í höfuðstöðvunum og þá er fullu samstarfi við lögregluna heitið.