Er það vegna þess að ég er karlmaður?

Luis Rubiales.
Luis Rubiales. AFP/Thomas Coex

Luis Rubiales, fyrrverandi forseti spænska knattspyrnusambandsins, veltir því fyrir sér hvort hann þurfi að mæta fyrir rétt vegna þess að hann er karlmaður.

Rubiales stendur frammi fyrir réttarhöldum þar sem hann var ákærður fyrir kynferðisbrot. Lýtur málið að því þegar hann kyssti Jennifer Hermoso á munninn eftir að spænska kvennalandsliðið tryggði sér heimsmeistaratitilinn síðastliðið sumar.

Sagði hún kossinn ekki hafa verið með samþykki sínu og fór svo að lokum að Rubiales sagði af sér sem forseti sambandsins.

Enginn glæpur var framinn

„Það má ekki draga í efa það sem Jennifer Hermoso segir en það má draga í efa það sem ég segi af því að ég er karlmaður?

Að mínu mati hefur enginn glæpur verið framinn gagnvart Jennifer Hermoso. Þeir sem sjá myndirnar, ég fæ ekki skilið hvernig nokkur maður gæti litið á þetta sem kynferðisbrot.

Hin raunverulegu fórnarlömb eru fjölskylda mín og vinir,“ sagði Rubiales í viðtali við spænsku sjónvarpsstöðina La Sexta.

Hann var á dögunum handtekinn, grunaður um spillingu og mútuþægni í starfi sínu sem forseti spænska sambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert