Markaveisla í jafntefli stórliðanna

Pep Guardiola og Ruben Dias fagna markaskoraranum Phil Foden í …
Pep Guardiola og Ruben Dias fagna markaskoraranum Phil Foden í kvöld. AFP/Pierre-Philippe Marcou

Real Madrid tók á móti Manchester City á Santiago Bernabéu í Madrid í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Liðin buðu upp á markaleik þar sem hvert markið var öðru glæsilegra í stórskemmtilegu jafntefli, 3:3.

Leikurinn var aðeins tæplega tveggja mínútna gamall þegar Bernardo Silva hafði komið gestunum yfir með frábæru marki. Hann tók þá aukaspyrnu utan af velli og þegar allir bjuggust við fyrirgjöf frá Portúgalanum, þá lét hann vaða að marki og Andriy Lunin, markvörður Real Madrid, náði ekki að verja skot hans.

Rodrygo fagnar marki sínu í kvöld.
Rodrygo fagnar marki sínu í kvöld. AFP/Pierre-Philippe Marcou

Heimamenn voru ekki lengi að ná að jafna en það gerðu þeir með sjálfsmarki frá Ruben Dias, fyrirliða Manchester City. Dani Carvajal sendi þá boltann á Eduardo Camavinga sem fékk að valsa einn og óvaldaður upp að vítateig gestanna. Frakkinn lét vaða að marki en skot hans fór af Dias og þaðan í markið framhjá Stefano Ortega, markverði City.

Á 14. mínútu komust heimamenn yfir með marki frá Rodrygo. Hann fékk þá sendingu inn fyrir vörn gestanna frá landa sínum Vinicius Jr. og náði hann að komast framfyrir Manuel Akanji áður en hann renndi boltanum framhjá Ortega í markinu. Tvö mörk á tveimur mínútum frá heimamönnum og stemmningin öll með þeim hvítklæddu.

Hvorugt liðið náði að skapa sér afgerandi marktækifæri það sem eftir lifði fyrri hálfleiks ef frá eru talin nokkur skot frá Vinicius Jr. og Rodrygo sem enduðu í fanginu á Ortega í marki gestanna.

John Stones, Bernardo Silva og Josko Gvardiol fagna marki þess …
John Stones, Bernardo Silva og Josko Gvardiol fagna marki þess síðastnefnda í kvöld. AFP/Javier Soriano

Seinni hálfleikurinn fór rólega af stað og það var ekki fyrr en á 54. mínútur sem fyrsta færi hálfleiksins kom. Þá fékk Jude Bellingham boltann inni á vítateig gestanna, hann gerði vel og snéri á tvo varnarmenn City áður en hann náði skoti með vinstri fæti en það fór framhjá markinu.

Á 66. mínútu skoraði Phil Foden stórkostlegt mark. Enski landsliðsmaðurinn fékk þá boltann fyrir utan vítateig og lét hann vaða að marki. Skot hans var algjörlega magnað og endaði uppi í samskeytunum, óverjandi fyrir Andriy Lunin, markvörð Real Madrid.

Varnarmaðurinn Josko Gvardiol kom Manchester City aftur yfir á 71. mínútu með frábæru hægri fótar skoti fyrir utan vítateig heimamanna. Hann fékk þá sendingu frá Jack Grealish og lét vaða að marki og aftur átti Lunin ekki möguleika á að verja.

Federico Valverde fagnar marki sínu í kvöld.
Federico Valverde fagnar marki sínu í kvöld. AFP/Pierre-Philippe Marcou

Heimamenn voru ekki lengi að jafna en það gerði Federico Valverde á 79. mínútu með stórkostlegu skoti. Vinicius Jr. átti þá flotta fyrirgjöf á Valverde sem lét vaða að marki viðstöðulaust og söng boltinn í netinu, óverjandi fyrir Ortega í marki gestanna.

Meira var ekki skorað og endaði leikurinn með sex marka jafntefli. Seinni leikur liðanna fer fram í Manchester þann 17. apríl nk. og er ljóst að þar verður boðið upp á hörkuleik.

Real Madrid 3:3 Man. City opna loka
90. mín. Daniel Carvajal (Real Madrid) á skot framhjá Boltinn dettur fyrir Carvajal fyrir utan teiginn og fyrirliðinn lætur vaða í fyrsta en skot hans fer töluvert framhjá.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert