Spænski knattspyrnumaðurinn Rodri, miðjumaður Manchester City, viðurkennir að hann þurfi sárlega á hvíld að halda.
Rodri hefur leikið 41 leik á tímabilinu, flesta í byrjunarliði og oftast allar 90 mínúturnar, og mun þeim fjölga áður en tímabilið er úti.
Man. City er búið að spila þrjá af átta leikjum sínum í aprílmánuði.
„Ég þarf á hvíld að halda. Sjáum hvað kemur út úr samræðum okkar, hvernig við upplifum aðstæður.
Stundum er þetta bara eins og það er. Ég þarf að aðlagast. Hvíld er eitthvað sem við erum að plana,“ sagði Rodri á fréttamannafundi eftir leik í gærkvöldi.
Man. City gerði þá jafntefli við Real Madríd, 3:3, í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á Santiago Bernabéu í Madríd.