„Þetta var mjög tilfinningaþrungið augnablik,“ sagði fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Emil Hallfreðsson í Dagmálum.
Emil, sem er 39 ára gamall, lagði skóna á hilluna síðasta sumar eftir afar farsælan atvinnumannaferil en er búsettur á Ítalíu núna og stefnir á umboðsmennsku í framtíðinni.
Faðir Emils, Hallfreður Emilsson, lést eftir skammvinna baráttu við krabbamein í september árið 2014. Emil var þá samningsbundinn Hellas Verona á Ítalíu en hann skoraði frábært mark gegn Napoli í fyrsta leik sínum eftir fráfall föður síns og fagnaði á mjög eftirminnilegan hátt.
„Hann hafði fylgt mér allan minn feril og á rosalega stóran þátt í þessu öllu saman,“ sagði Emil.
„Þetta var fyrsti leikurinn minn eftir að ég kem aftur út og ég skora eftir einhverjar 17 sekúndur. Mér fannst þetta gefa mjög sterkt til kynna að hann væri enn þá með okkur.
Það brutust út alls konar tilfinningar þarna og ég held að ég hafi nánast grátið í fögnuðinum, mér fannst þetta svo ótrúlegt. Þetta var mjög erfiður kafli í mínu lífi, það var mjög erfitt að missa pabba sinn,“ sagði Emil meðal annars.
Viðtalið við Emil í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.