Ákærður fyrir líkamsárás

Stig Töfting gaf út sjálfsævisögu árið 2005.
Stig Töfting gaf út sjálfsævisögu árið 2005. Ljósmynd/People's Press

Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Stig Töfting hefur verið ákærður fyrir líkamsárás.

Töfting, sem er sparkspekingur hjá Viaplay í heimalandi sínu Danmörku, er sagður hafa slegið annan karlmann nokkrum sinnum í andlitið í kjölfar rifrildis þeirra á milli eftir tónleika í Vejle þann 11. ágúst síðastliðinn.

Staðarblaðið Folkeblad í Vejle greinir frá og hefur kæruna undir höndum. Töfting vildi ekki tjá sig um málið við blaðið er leitast var eftir því en þarf hann að mæta fyrir rétt á fimmtudaginn í næstu viku, 2. maí.

Ýtti harkalega við manninum

Þegar fyrstu fregnir bárust af málinu í ágúst gaf Töfting út yfirlýsingu þar sem hann kvaðst ekki hafa slegið manninn en viðurkenndi að hafa ýtt harkalega við honum.

Þeir hafi síðan rætt saman, tekist í hendur og ákveðið að gera ekki meira úr málinu.

Maðurinn tók hins vegar síðar ákvörðun um að kæra Töfting, sem hefur margoft á ævinni komist í kast við lögin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert