Jóhannes Karl Guðjónsson hætti störfum sem aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins í knattspyrnu og tók við danska félaginu AB í gær.
Skrifar Jóhannes undir þriggja ára samning við AB og kemur strax til félagsins þar sem forveri hans David Roupnah var rekinn á sunnudaginn.
AB leikur í dönsku C-deildinni og er eitt frægasta félag Danmerkur og hefur orðið níu sinnum danskur meistari. Hins vegar eru liðin 57 ára frá síðasta titlinum. Eini titillinn eftir það er sigur í bikarkeppninni árið 1999.
AB lék síðast í úrvalsdeildinni árið 2004 en hefur leikið í C-deildinni frá 2015, að einu ári undanskildu. Þar er liðið í sjötta sæti þegar fimm umferðum er ólokið og á enga möguleika á að vinna sér sæti í B-deildinni að þessu sinni.
AB var í miklum fjárhagsvandræðum en í nóvember 2022 keyptu um 140 Bandaríkjamenn félagið. Flestir eru frá New York-borg.
Fjárfestarnir eru hins vegar ekki auðkýfingar eða viðskiptajöfrar heldur eru þetta endurskoðendur, fasteignasalar, fréttamenn, ljósmyndarar og svo framvegis.
Hver og einn lagði til um 1,5 til 4,5 milljónir íslenskra króna til að kaupa félagið. Hittast eigendurnir reglulega á bar í Brooklyn-hverfi í New York, klæðast litum félagsins, og horfa saman á leikina.