Tekinn inn í frægðarhöll ítalska félagsins

Emil Hallfreðsson og Lorenzo Montipo, markvörður Hellas Verona, með viðurkenningar …
Emil Hallfreðsson og Lorenzo Montipo, markvörður Hellas Verona, með viðurkenningar sínar fyrir leik Verona og Inter en Montipo var um leið heiðraður sem leikmaður ársins hjá félaginu.

Emil Hallfreðsson, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, var í gær tekinn inn í frægðarhöll ítalska félagsins Hellas Verona og heiðraður fyrir leik þess gegn Ítalíumeisturum Inter Mílanó í lokaumferð A-deildarinnar þar í landi.

„Já, ég varð þessa heiðurs aðnjótandi í gær," sagði Emil þegar mbl.is sló á þráðinn til hans í Verona í dag en þar er hann búsettur með fjölskyldu sinni.

„Ég fékk símtal frá félaginu í vikunni en á hverju ári er einn eldri leikmaður félagsins tekinn inn í þessa frægðarhöll eða hóp „hinna ógleymanlegu“ eins og þeir kalla þetta.

Inter var löngu búið að vinna meistaratitilinn og Hellas bjargaði sér frá falli fyrir síðustu umferðina þannig að þessi leikur var algjört partí fyrir bæði liðin.

Ég var kallaður út á völlinn fyrir leikinn ásamt því að markvörður liðsins var heiðraður sem leikmaður ársins. Þetta var mjög gaman og mikill heiður og sýnir að maður hefur greinilega gert eitthvað rétt á þessum árum hjá félaginu,“ sagði Emil.

Átti langan og góðan tíma hérna

Hann lék með Hellas Verona á árunum 2010 til 2016 og tók þátt í miklu ævintýri en á þeim tíma vann félagið sig upp úr C-deildinni og í A-deildina þar sem Emil lék þrjú tímabil með liðinu og spilaði 77 leiki fyrir það í þessari einni sterkustu deild Evrópu.

Emil Hallfreðsson ásamt Emmanuel syni sínum fyrir leik Verona og …
Emil Hallfreðsson ásamt Emmanuel syni sínum fyrir leik Verona og Inter í gær.

„Ég átti mjög skemmtileg ár með Hellas og við búum hérna í borginni. Hellas Verona og Udinese eru þau félög sem mér leið best hjá og ég átti langan og góðan tíma hérna.

Ég mæti stundum á heimaleiki liðsins og fylgist vel með því. Íþróttastjóri félagsins er sá sami og þegar ég spilaði með því, kom aftur í fyrra, þannig að ég er í góðu sambandi við hann og fleiri hjá félaginu.

Það er gaman að fá smá viðurkenningu eftir ferilinn, finna að það sem maður gerði fyrir félagið á sínum tíma er metið. Þetta er í raun í annað sinn á einum mánuði sem þeir heiðra mig því þeir kölluðu í mig fyrir nokkrum vikum og afhentu mér búning,“ sagði Emil Hallfreðsson.

Emil lagði skóna á hilluna fyrir ári, vorið 2023, eftir að hafa leikið samfleytt á Ítalíu frá árinu 2007, að einu tímabili undanskildu. Hann er langleikjahæsti íslenski knattspyrnumaðurinn í A-deildinni með 177 leiki fyrir Reggina, Hellas Verona, Udinese og Frosinone.

Þá lék hann fjögur síðustu tímabil ferilsins í ítölsku C-deildinni með Padova og Virtus Verona. Hann spilaði samtals 452 deildaleiki á ferlinum og þar af 404 á Ítalíu, en Emil er í dag sextándi leikjahæsti knattspyrnumaður Íslandssögunnar í deildakeppni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert