Staðfesti fyrirspurnir um Loga

Logi Tómasson hefur leikið vel með Strömsgodset í norsku úrvalsdeildinni.
Logi Tómasson hefur leikið vel með Strömsgodset í norsku úrvalsdeildinni. mbl.is/Óttar Geirsson

Jostein Flo, forráðamaður norska knattspyrnufélagsins Strömsgodset, segir að erlend félög hafi spurst fyrir um Loga Tómasson, vinstri bakvörð liðsins sem félagið keypti af Víkingum síðasta sumar.

Logi hefur átt góða leiki með Strömsgodset og var m.a. valinn besti leikmaður liðsins af staðarblaðinu Drammens Tidende í leik gegn Haugesund fyrir skömmu.

Staðarblaðið spurði Flo út í Loga eftir jafnteflisleik liðsins gegn Odd í dag, 1:1, og hann staðfesti að fyrirspurnir hefðu borist um Íslendinginn, sem og fleiri leikmenn liðsins.

„Það voru nokkur félög með útsendara á leiknum í dag og það eru fulltrúar félaga á öllum okkar leikjum," sagði Flo og nefndi fimm leikmenn til sögunnar, þar á meðal Loga.

„En ég vonast fyrst og fremst eftir því að geta haldið okkar leikmönnum frekar en að selja þá. En við getum heldur ekki keypt leikmenn nema selja fyrst. Við getum ekki notað spilapeninga!" sagði Jostein Flo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert