Sænska knattspyrnufélagið Norrköping hefur ráðið Magna Fannberg í starf íþróttaráðgjafa.
Magni, sem er 44 ára gamall, var síðast íþróttastjóri hjá Start í Noregi en lét af störfum í desember síðastliðnum.
Í mars greindi Sportbladet frá því að hann væri á leið til Norrköping, þar sem Magni myndi taka við svipuðu starfi. Nú hefur loks verið gengið frá ráðningunni.
Áður hafði hann starfað sem þróunarstjóri hjá sænska félaginu AIK og norska félaginu Brann auk þess að þjálfa U19 ára lið Brommapojkarna, þar sem Magni þjálfaði einnig karlaliðið árið 2015. Á Íslandi þjálfaði hann síðast karlalið Fjarðabyggðar í 1. deild árið 2008.
Í frétt á heimasíðu Norrköping segir að Magni muni koma að samsetningu leikmannahóps karla- og kvennaliða félagsins, þróa uppbyggingu karlaliðsins í tengslum við akademíu félagsins og vera íþróttastjóranum Tony Martinsson innan handar í ýmsum verkefnum.
Með karlaliði Norrköping leika Arnór Ingvi Traustason og Ísak Andri Sigurgeirsson.