Stuðningsmenn þýska knattspyrnustórveldisins Bayern München eru hissa á ákvörðun félagsins að senda landsliðskonuna Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur aftur á lán til Bayer Leverkusen.
Karólína endursamdi við Bayern til ársins 2026 í dag en hún verður á láni hjá Bayer Leverkusen á næsta tímabili.
Karólína var á láni hjá Leverkusen á síðasta tímabili og stóð sig með prýði. Margir stuðningsmenn bjuggust við að hún yrði hluti af liði Bayern á næsta tímabili.
Stuðningsmenn Bayern eru furðulostnir á ákvörðuninni eins og má sjá undir tilkynningu Bæjara á Instagram.
Einn þeirra skrifaði:
„Frábært að hún sé að framlengja en hún er klárlega nógu góð í stærra hlutverk hjá okkur. Ég skil ekki af hverju hún er að fara aftur á lán.“
Annar sagði:
„Gangi þér vel Karólína, en af hverju annað tímabil hjá Leverkusen?“
„Það er mjög mikilvægt að hún framlengdi. Ég hefði hins vegar viljað sjá hana hér á næsta tímabili,“ sagði þriðji en flest ummæli undir tilkynningunni eru í sama dúr.