Dagur lagði upp mark og Nökkvi fékk tækifæri

Dagur Dan Þórhallsson í leik með Orlando City.
Dagur Dan Þórhallsson í leik með Orlando City. AFP/Alex Menendez

Dagur Dan Þórhallsson og Nökkvi Þeyr Þórisson komu mikið við sögu hjá liðum sínum í bandarísku MLS-deildinni í knattspyrnu í nótt.

Dagur lagði upp fyrsta mark Orlando City strax á 4. mínútu þegar liðið vann góðan heimasigur á Chicago Fire á heimavelli, 4:2. Hann spilaði allan leikinn.

Nökkvi fékk fágætt tækifæri í byrjunarliði St. Louis City sem gerði jafntefli á heimavelli við Atlanta United, 1:1. Hann lék í 83 mínútur en hafði ekki byrjað leik í deildinni síðan í fyrstu umferðinni í mars. Nökkvi hefur þó komið við sögu í 15 af 18 leikjum liðsins á tímabilinu.

Gengi Íslendingaliðanna er ekkert sérstakt. Orlando er í 10. sæti af 15 liðum í Austurdeildinni en er þó með jafnmörg stig og Atlanta í 9. sætinu en liðin í 8. og 9. sæti komast í umspil fyrir úrslitakeppnina.

St. Louis City er í 12. sæti af 14 liðum í Vesturdeildinni, eftir að hafa unnið deildina í fyrra, og er sex stigum frá níunda sætinu, umspilssæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert